Saga um samvinnu
Hvernig fáum við mjólk á morgnana
Hér er saga sem fjallar um það hvernig við öll tengjumst. Allt sem við snertum og sjáum er tengt ósýnilegum þráðum sem tengjast ekki aðeins okkur heldur öllu fólki án þess að við séum meðvituð um það eða sjáum það.
Gott dæmi er mjólkin sem við drukkum í morgun. Hún kom úr fernu sem við fengum í matvörubúðinni. En sagan um það hvernig mjólkin komst í fernuna og út í matvörubúð og allir þeir sem hjálpuðu mjólkinni þangað byrjaði löngu áður. Einhversstaðar þurfti einhver að reisa girðingar og fylgjast með því að kýrnar fengju nóg af grasi að éta. Svo þurfti einhver að sjá um að mjólka kýrnar og safna mjólkinni saman í stóra mjólkurtanka. Þegar það var búið þurfti einhver að sjá um að sækja mjólkina og keyra hana í mjólkurtönkunum í mjólkurvinnslustöð til að vinna mjólkina og setja hana í mjólkurfernur. Að því loknu þurfti einhver annar að keyra mjólkurfernurnar út í matvörubúð. Að lokum þurfti einhver í matvörubúðinni að taka mjólkurfernurnar út úr bílnum og setja þær í kælinn í búðinni þar sem þú fannst þær og tókst með þér heim.
Við tökum mjólkinni sem við fáum á morgnana sem sjálfsögðum hlut, en í raun hafa margir hlutverki að gegna til þess að mjólkin komist til okkar. Allt þetta fólk þurfti að vinna sína vinnu vel og vandlega svo við gætum drukkið mjólk á morgnana. Við erum öll tengd þessu fólki eins og milli okkar sé ósýnilegur þráður af því að við komumst öll í snertingu við sömu mjólkina!